28.04.2016 18:49

Aðalfundur björgunarsveitarinnar Núpa

Aðalfundur björgunarsveitarinnar Núpa verður haldinn næstkomandi fimmtudag, 5. maí, kl 20:00. í húsnæðir sveitarinnar að Bakkagötu 6

 

Á dagskrá eru hefðbundinn aðalfundarstörf.

 

Félagar eru hvattir til að mæta

 

Nýjir félagar sérlega velkomnir í skemmtilegt starf.

 

Stjórnin

 

 

28.04.2016 18:47

Framfarafélag Öxarfjarðar- fundur!

Framfarafélag Öxarfjarðar

Framfarafélag Öxarfjarðar boðar til fundar í Öxarfjarðarskóla mánudaginn 2. maí kl. 20:00.

Dagskrá:

  • Sólstöðuhátíð- Hugmyndir að dagskrárliðum vel þegnar.
  • Öxarfjörður í sókn- Brothættar byggðir
  • Fulltrúar í hverfisráð
  • Önnur mál


Nú er margt að gerast við Öxarfjörðinn og því eru ungir sem gamlir íbúar við Öxarfjörð hvattir til að mæta og taka þátt í starfi Framfarafélagsins. Þetta er gott tækifæri fyrir íbúana í héraðinu til að gera félagið að öflugum vettvangi fyrir í umræður um málefni þess.

Þetta verður í senn fróðlegur og skemmtilegur fundur.

Sjáumst hress!

 

28.04.2016 18:42

Kvenfélag Öxfirðinga kaupir hjartastuðtæki

Kvenfélag Öxfirðinga kaupir hjartastuðtæki

 

Vettvangsliðar á vegum slökkviliðs Norðurþings fara í útköll vegna slysa og veikinda á svæðinu við Öxarfjörð og sinna sjúklingi þar til aðstoð berst með sjúkrabíl frá Húsavík eða Þórshöfn. Á svona víðfeðmu svæði þar sem vegalengdir eru langar er gott að vettvangsliðar séu dreifðir um byggðina og séu jafnframt vel útbúnir til að geta sinnt sjúklingi þar til frekari aðstoð berst. Vettvangsliðar hafa bækistöð í slökkvistöðinni á Kópaskeri og þar er sjúkrabíllinn sem áður sinnti svæðinu og er nú viðbragðsbíll vettvangsliða með þau tæki og tól sem vettvangsliðarnir hafa til afnota. Bíllinn er vel útbúinn og enn með nánast allan þann búnað sem var í honum meðan hann var skilgreindur sjúkrabíll. Þeir vettvangsliðar sem búa utan Kópaskers eru útbúnir góðum útkallspoka með lágmarksbúnaði til að geta sinnt sjúklingi. Þeir geta þá farið beint á útkallsstað um leið og útkall berst og stytt þannig viðbragðstíma þar til bíllinn kemur frá Kópaskeri og Húsavík/Þórshöfn.

Kvenfélag Öxfirðinga keypti á dögunum hjartastuðtæki sem Kristján Ingi á Daðastöðum hefur fengið afhent til umráða til að hafa í sínum útkallspoka. Kristján Ingi býr utan Kópaskers og starfar einnig í Lundi og getur þannig brugðist skjótt við ef til útkalls kæmi vegna hjartaáfalls. Það getur skipt sköpum og aukið lífslíkur að hjartastuðtæki sé komið sem fyrst á sjúkling þar sem dæluvirkni hjartans hefur stöðvast vegna hjartsláttaróreglu. Nú eru tvö hjartastuðtæki í umsjá vettvangsliða utan Kópaskers en auk þeirra eru hjartastuðtæki í íþróttahúsunum á Kópaskeri og í Lundi ásamt því að tæki er í bíl vettvangsliða á Kópaskeri.

Enn og aftur sýna kvenfélögin hversu vel þau styðja við sitt samfélag og á Kvenfélag Öxfirðinga þakkir skildar fyrir þetta framtak.

 

 

 

Á myndinni tekur Kristján Ingi við tækinu af þeim Guðlaugu Önnu og Huldu Hörn úr stjórn Kvenfélags Öxfirðinga.

 

28.04.2016 13:05

Syngjum okkur inn í vorið í Skjálftasetrinu, þrátt fyrir veðrið utandyra! :D

           

Vortónleikar

Kór Snartarstaðakirkju heilsar vori með tónleikum í skólahúsinu á Kópaskeri fimmtudagskvöldið 28. apríl kl. 20:30.

Á efnisskrá kórsins eru ýmis vor- og sumarlög ásamt fleiru. Hildur Sigurðardóttir og Kristján Þ. Halldórsson syngja einsöng. Stjórnandi er Jörg E. Sondermann.

Tónleikarnir eru lokin á fjörugu vetrarstarfi kórsins.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Vortónleikar

26.04.2016 19:21

Vortónleikar!

Kór Snartarstaðakirkju heilsar vori með tónleikum í skólahúsinu á Kópaskeri fimmtudagskvöldið 28. apríl kl. 20:30.
Á efnisskrá kórsins eru ýmis vor- og sumarlög og fleira. Hildur Sigurðardóttir og Kristján Þ. Halldórsson syngja einsöng.
Stjórnandi er Jörg E. Sondermann.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

26.04.2016 19:15

Aðalfundur

Aðalfundur Fræðafélags um forystufé verður haldinn í Fræðasetri um forystufé á Svalbarði fimmtudagskvöldið 28. apríl kl. 20:00.
Venjuleg aðalfundarstörf auk rabbs um hvað framundan er.
Allir velkomnir, sérstaklega nýir félagar.

17.04.2016 16:24

Höfnin á Kópaskeri fyllist af sandi: Bátarnir eru dregnir á flot á fjörunni

Höfnin á Kópaskeri fyllist af sandi: Bátarnir eru dregnir á flot á fjörunni

Þessi mynd, tekin í fyrra, sýnir glöggt hvernig ástandið er orðið við flotbryggjuna. Báturinn á myndinni situr á sandinum en alla jafna ætti annar að komast framan við. Ástandið er síst betra í dag.

Sandur og leir Þessi mynd, tekin í fyrra, sýnir glöggt hvernig ástandið er orðið við flotbryggjuna. Báturinn á myndinni situr á sandinum en alla jafna ætti annar að komast framan við. Ástandið er síst betra í dag.       Mynd: Haukur Marinósson

Höfnin á Kópaskeri er að fyllast af sandi. Þess eru dæmi að þurft hafi að nota smábáta, sem eru á grásleppu- og þorskveiðum við Kópasker, til að draga aðra báta á flot til að komast til veiða. Sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi segist hafa reynt að tala fyrir framkvæmdum við höfnina en segir að því sé borið við að verkefnið sé dýrt.

Nú er svo komið að aðeins hluti bryggjunnar er nothæfur og erfitt getur verið fyrir stærri og smærri báta að athafna sig. Heimamönnum svíður að á sama tíma séu tveir stórir dýpkunarprammar að störfum hinum megin Öxarfjarðar, þar sem verið er að búa til stórskipahöfn vegna framkvæmda á Bakka.

Þurfa að sæta lagi

Um tíu bátar stunda nú veiðar frá Kópaskeri. Á vorin hrygnir bæði grásleppa og þorskur á svæðinu og báta drífur að. Aflabrögð hafa að undanförnu verið prýðileg, sérstaklega á grásleppu. Tíðin hefur verið með besta móti, miðað við árstíma. Það sem varpar skugga á vertíðina eru hafnarskilyrðin. Þegar stendur á fjöru í stórstreymi er ástandið í höfninni mjög slæmt og bátar hafa þurft að sæta lagi til að komast til veiða.

Þetta staðfestir hafnarvörður í samtali við DV. „Það er að fyllast hérna. Þetta er orðið erfitt fyrir stærri báta,“ segir Guðmundur Magnússon í samtali við DV. Hann segir að á stórstreymisfjöru setjist bátarnir margir hverjir á kjölinn. „Þetta er vont fyrir bátana, þeir draga sanddrullu inn í síur og annað.“

 

Málefni hafnarinnar voru tekin fyrir á síðasta hafnafundi í Norðurþingi. Málið er á fumstigi. Þessi mynd var tekin í vikunni. Stærri bátar komast illa að bryggjunni og alls ekki nær landi.
Ófremdarástand Málefni hafnarinnar voru tekin fyrir á síðasta hafnafundi í Norðurþingi. Málið er á fumstigi. Þessi mynd var tekin í vikunni. Stærri bátar komast illa að bryggjunni og alls ekki nær landi.
Mynd: Inga Sigurðardóttir

 

Guðmundur segir að þrjú ár séu síðan dæluskip kom síðast í höfnina. Það hafi hins vegar bara dælt í tvo daga og lítið hafi áunnist. Jafnharðan hafi runnið ofan í holurnar sem grafnar hafi verið. Mun meira þurfi til. „Þetta er dapurt ástand en mér skilst að það standi til að gera eitthvað.“ Hann staðfestir að sjómenn láti í sér heyra vegna stöðu mála.

Geta sig hvergi hreyft á fjöru

Grímseyingurinn Sigurður Henningsson gerir nú út frá Kópaskeri. „Ég er með 15 tonna bát. Þetta er alveg á mörkunum þar sem ég ligg uppi við bryggjuna,“ segir hann í samtali við DV. Þeir bátar sem séu innan við sig sitji oft bara á botninum þegar fjari. Hann segir að aðalbryggjan sé ekki nothæf nema að hluta og að fjögurra báta flotbryggja rúmi aðeins tvo. „Hitt er bara sandur.“ Sigurður segir mörg dæmi þess að bátar hafi þurft að bíða í einn til tvo tíma til að komast frá bryggjunni. Þeir standi oft bara á kilinum og geti sig hvergi hreyft.

Farartálminn Jökulsá á Fjöllum

Þórir Örn Gunnarsson, rekstrarstjóri hafna í Norðurþingi, segir í samtali við DV að málið hafi verið tekið fyrir á síðasta hafnarnefndarfundi. Ákveðið hafi verið að fara í vinnu með Siglingastofnun við að skoða hvað hægt sé að gera. Leirinn í höfninni sé svo fínn að illa hafi gengið að fá hann til að tolla í dæluskipinu, sem síðast var fengið til að dýpka. Honum skoli jafnharðan út aftur. Hann segir að það sama myndi gilda um dýpkunarpramma sem notaður er við stórskipahöfnina.

Þórir segir að til tals hafi komið að senda langarma gröfur á vettvang en brýrnar á svæðinu, sérstaklega yfir Jökulsá á Fjöllum, komi í veg fyrir að hægt sé að flytja stórvirkar vinnuvélar á Kópasker. Því sé mönnum vandi á höndum.

Þess má geta að framburður Jökulsár er ástæða þess að höfnin fyllist af sandi og leir. „Það hefur ekkert verið ákveðið að loka þessu. Við viljum helst halda þessu opnu en þetta er verkefni sem leysa þarf til framtíðar – hvernig best sé að gera þetta,“ segir Þórir. Hann segir að málið sé á frumstigi.

Brothætt byggð

Kópasker er á lista yfir brothættar byggðir en það er verkefni á vegum Byggðastofnunar sem ýtt var úr vör 2012, með það að markmiði að efla þær byggðir sem veikast standa á landinu. Stofnunin hefur fengið 150 milljónir til ráðstöfunar verkefna í þessum byggðum en staða mála á Raufarhöfn, næstu byggð við Kópasker, varð kveikjan að verkefninu. Þó að útgerðin á Kópaskeri telji ekki marga báta og sé auk þess árstíðabundin, skipta tíu litlar útgerðir miklu máli.

Undir það tekur Olga Gísladóttir, fulltrúi í meirihluta Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og óháðra í sveitarstjórn Norðurþings. Í fyrstu línu málefnasamnings sem fulltrúar flokkanna undirrituðu árið 2014, er kveðið á um að „áfram verði stuðlað að uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs, samhliða því að styrkja stoðir grunnatvinnuveganna í sveitarfélaginu.“

Reyni að berjast fyrir þessu

Olga, sem er búsett skammt frá Kópaskeri, segir að höfnin skipti Kópasker jafn miklu máli og hafnir stærri og smærri sveitarfélaga allt landið um kring. Hún sé hluti af hagkerfinu í þessari brothættu byggð. Sú innspýting sem fylgi sjómönnum sé mikilvæg verslun, heilsugæslu og annarri þjónustu á svæðinu. „Ég reyni að berjast fyrir þessu og það er ekki þannig að þetta sé ekki rætt. En þetta þykir óhemju dýrt,“ segir Olga í samtali við DV. Hún segist aðspurð hrædd um að ekkert verði gert í bráð. Olga bendir á að mikið púður fari í framkvæmdir við Bakka á Húsavík – og það sé svo sem eðlilegt – en fleira þurfi að gera.

Einn viðmælandi DV hafði að orði – í gamni og alvöru – að þess væri ekki langt að bíða að hægt væri að fá sér göngutúr út að bauju. Heimamenn óttast að verði ekki gripið til aðgerða geti bátar einfaldlega ekki lagt að bryggju. Olga segir að ekki komi til greina að loka höfninni. „Þá gæti sá síðasti allt eins slökkt ljósin,“ segir hún við DV.

 

Fréttin er tekin af vef dv.is með fullu leyfi greinarhöfundar, Baldurs Guðmundssonar

16.04.2016 19:31

Tónleikar í Skólahúsinu á Kópaskeri Föstudaginn 22. apríl kl. 20:30

Tónleikar í Skólahúsinu á Kópaskeri

Föstudaginn 22. apríl kl. 20:30

 

 

 

Á þessum fyrstu tónleikum Flygilvina á árinu munu þau hjón Kristjana Arngrímsdóttir og Kristján Hjartarson flytja okkur fjölbreytta dagskrá á sinn einstaka hátt.

Miðaverð er kr 1.500 en ókeypis fyrir börn á grunnskólaaldri.

 

Flygilvinir – tónlistarfélag við Öxarfjörð    SL_nordurland_E-01

13.04.2016 22:03

Gönguskíðaferð á Hólaheiði

Ferðafélagið Norðurslóð efnir til gönguskíðaferðar á Hólaheiði laugardaginn 16. apríl. 
Lagt verður af stað kl. 13:00 frá afleggjaranum að gangnamannaskála Núpsveitunga (Kötluvíðra-hótelinu) um 4 km vestan við gatnamótin til Raufarhafnar.
Gengið að Ytri-Kerlingu og til baka, um 5 km hvora leið.

Ferðafélagið vonast eftir góðri þátttöku og góðum útivistardegi.

12.04.2016 11:47

Ályktun Norðurhjara um samgönguáætlun

Norðurhjari, ferðaþjónustusamtök fagna því að veitt skuli fé í vegabætur á Langanesströnd við Bakkafjörð í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2015 – 2018. Vegabætur milli Þórshafnar og Bakkafjarðar eru löngu orðnar tímabærar til að tengja saman byggðirnar og ljúka malbikun á norðausturvegi nr. 85.

Að sama skapi eru vonbrigðin mikil að ekki skuli stefnt að því að ljúka vegtengingu á Dettifossvegi, heldur skilja eftir kaflann milli Vesturdals og Dettifoss. Þannig næst ekki nýting á vegarkaflana sem hafa verið byggðir upp beggja vegna og mikilvæg tenging við Mývatnssveit og Dettifoss næst ekki. Sú tenging er mjög mikilvæg fyrir alla uppbyggingu ferðaþjónustu við Öxarfjörð. En þar er nú einmitt í gangi verkefnið Brothættar byggðir sem leggur m.a. áherslu á að byggja upp ferðaþjónustu.

Á fjölsóttu samgönguþingi Norðurhjara sl. haust var algjör eining um mikilvægi þessa vegar fyrir ferðaþjónustu og uppbyggingu á norðausturhorninu.

Norðurhjari skorar á alla hlutaðeigandi að taka þessa tillögu til endurskoðunar og ljúka tengingu Dettifossvegar hið fyrsta.

31.03.2016 09:11

Styrkir til lista- og menningarmála

 

 


Styrkir til lista- og menningarmála

 

 

Æskulýðs- og menningarnefnd Norðurþings auglýsir eftir umsóknum um styrki til lista- og menningarmála. Styrkirnir eru veittir samkvæmt skipulagsskrá Lista- og menningarsjóðs Norðurþings og reglum um úthlutun úr sjóðnum.

 

Úthlutun úr sjóðnum fer fram tvisvar á ári. Skipulagsskrá Lista- og menningarsjóðs  ásamt reglum um úthlutun úr sjóðnum má nálgast á heimasíðu Norðurþings http://www.nordurthing.is.

 

Umsóknum vegna úthlutunar í apríl 2016 skal skila á skrifstofu Norðurþings á Húsavík eða með tölvupósti á snabbi@nordurthing.is eigi síðar en 5. apríl n.k. Allar nánari upplýsingar veitir undirritaður.

 

F.h. Æskulýðs- og menningarnefndar Norðurþings.

 

Snæbjörn Sigurðarson

Menningarfulltrúi

s. 669-8425,

snabbi@nordurthing.is 

 

 

 

 

Styður við lista- og menningarstarf í Norðurþingi

 

 

  • 1