23.07.2014 12:55

Bílvelta á veginum um Sléttu

Bílvelta varð á dögunum á veginn um Sléttuna.  Eftir því sem fréttaritari kemst næst var um Suzuki Grand vitara bíl að ræða og varð veltann skammt austan við afleggeran að Rifi.

 

mbl.is skrifaði eftirfarandi frétt í gærkvöldi

""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""

Mesta mildi er að ekki fór verr þegar ökumaður missti stjórn á bif­reið sinni á Mel­rakka­sléttu í gær.

Bif­reiðin lenti á grjót­hrúgu og gereyðilagðist. Var hún geymd á slysstað yfir nótt en þegar hún var sótt í dag voru dekk­in horf­in ásamt felg­un­um, þar sem ein­hverj­ir óprúttn­ir ein­stak­ling­ar höfðu stolið þeim. 

Lög­regl­an á Húsa­vík biðlar til fólks að láta af slíkri iðju og valda þeim sem lent hafa í slysi enn meira tjóni. 

""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""

 

Hér má sjá bifreiðina dekkjalausa þegar hún var sótt af slysstað í dag.

22.07.2014 19:34

Útvarpsbilanir á Kópaskeri og nágrenni

Borið hefur á því síðustu misseri að útvarpsendingar RÚV hafa verið mjög lélegar og ekki hlustandi á útvarp fyrir vikið suma dagparta.

Pétur Þorsteinsson hefur nú látið ljós sitt skína í fjölmiðlum og sent RÚV bréf um málefnið.  Hafi hann þökk okkar allra fyrir það.

 

Eftirfarandi frétt er tekin af kvennabladid.is

 

Handónýt þjónusta RÚV ohf og Vodafone

 

Pétur Þorsteinsson á Kópaskeri skrifaði færslu á Facebook síðu sinni í dag og við birtum hér með góðfúslegu leyfi höfundar.
Ritstjórn

„Í átta ár hef ég tilkynnt Ríkisútvarpinu um hverja einustu bilun í útsendingarkerfi þess – fyrst látlausar bilanir á Hjarðarbóli í Fljótsdal í fjögur ár og síðan önnur fjögur ár á Kópaskeri.

Ég nenni þessu ekki lengur. Ríkisútvarpið ber ábyrgð á því að útsendingar þess náist óbrjálaðar og þau fyrirtæki sem fá greitt fyrir að reka dreifikerfið geta ekki stólað á að kauplausir áhugamenn sinni verkum þeirra.

Í yfirstandandi bilanalotu einni hefur útsending Ríkisútvarpsins á Kópaskeri verið gjörónýt í tæpan hálfan mánuð, fast að tvær vikur. Það slagar uppí 4% af almanaksárinu.

Ég hef einfaldlega slökkt á viðtækjum mínum og reikna ekki með því að kveikja á þeim aftur fyrr en Vodafone skammast til að gefa út tilkynningu um að útsendingin á Kópaskeri sé komin í lag. Að hámarki mun ég senda RÚV tilkynningu um að Vodafone hafi algjörlega brugðist skyldum sínum á þessu landshorni.“

Pétur sendi yfirstjórn RÚV jafnframt eftirfarandi bréf í dag.

Til stjórnar RÚV ohf

Vek hér með athygli stjórnar RÚV á óviðunandi og handónýtri þjónustu Vodafone á Kópaskeri. FM-útsending Rásar I og Rásar II á svæðinu hefur verið gjörsamlega handónýt í næstum tvær vikur og ekkert bólar á úrbótum. Það slagar uppí 4% af almanaksárinu, sem er vitanlega ekkert annað en þjónustufall og brot á skyldum stofnunarinnar.

Ég krefst þess að Stjórn RÚV sjái til þess að Vodafone gegni skyldum sínum við landsmenn, geri þegar í stað við bilanir og biðji hlustendur á Kópaskeri og nágrenni afsökunar á óviðunandi þjónustu.

Ég hef slökkt á útvarpsviðtækjum mínum og mun ekki kveikja á þeim aftur fyrr en RÚV ehf og Vodafone tilkynna með opinberum hætti að útsendingarkerfi RÚV á Kópaskeri sé komið í lag. Ég verð einnig fremur ófús til að greiða fyrir þjónustu sem ég hef í engu notið síðustu vikur.

Pétur Þorsteinsson

Pétur Þorsteinsson

19.07.2014 23:12

Tónleikar Hafdísar Huldar í Skjálftasetrinu

Hafdís Huld heldur tónleika í Skjálftasetrinu á Kópaskeri 30. júli og er hluti af tónleikaferðalagi hennar um landið.

 

Tónleikafrðalagið er í tilefni af útgáfu þriðju sólóplötunnar hennar, Home. Með henni á tónleikunum verður gítarleikarinn Alisdair Wright og hefjast tónleikarnir klukkan 20.00

Miðaverð er 2000 kr

 

 

 

 

Facebook síða viðburðarins á Kópaskeri:  https://www.facebook.com/events/623594607754988/?ref_newsfeed_story_type=regular

14.07.2014 23:10

Ásbyrgismótið fór vel fram um helgina

Hið árlega Ásbyrgismót var haldið um helgina, það hófst með fótboltamóti á föstudagskvöldið.

Laugardagurinn byrjaði svo með fótboltamóti fyrir 10 ára og yngri en frjálsíþróttakeppni fór af stað um hádegið á laugardaginn. Seinnipartinn var svo ratleikur sem landvörður skipulaði sem heppnaðist afar vel og sameiginlegt grill og kvöldvaka sem einkenndist af hoppuköstulum fyrir yngri kynslóðina á meðan að fullorna fólkið spreytti sig svo í stígvélakasti og fótbolta.

Eftir frjálsíþróttakeppnina á sunnudeginum var verðlaungaafhending þar sem Langnesingar unnu stigabikarinn, Leifur heppni í öðru sæti og Austri í þriðja Helgin heppnaðist vel að sögn ásbyrgismótanefndar og veðrið var gott.

Í Ásbyrgismótsnefndinni eru Guðmundur Magnússon fyrir hönd Snartar, Birna Björnsdóttir fyrir hönd Austra, Kristinn Lárusson fyrir hönd Langnesinga, Magnea Dröfn Hlynsdóttir fyrir hönd Leifs heppna og Silja Rún Stefánsdóttir fyrir hönd UMFÖ

 

 

 

 

 

Fleiri myndir má sjá hér:  http://kopasker.123.is/PhotoAlbums/263556/

 

Texti: Silja Rún

Myndir: Silja Rún og af fésbókarsíðu Leifs Heppna

 

 

10.07.2014 16:01

Leikskólabörn fá endurskinsvesti

Björgunarsveitin Núpar færði í dag leikskólabörnum í Öxarfjarðarskóla endurskinsvesti

Þessa dagana eru slysavarnadeildir og björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar að færa öllum leikskólum landsins endurskinsvesti til að nota í vettvangsferðum 4-5 ára barna. Gjöfin er hluti af verkefninu „Allir öruggir heim“ sem félagið stendur fyrir í samvinnu við Neyðarlínuna, TM, HB Granda, Verkfræðiskrifstofuna Efla, ISAVIA, Hópferðamiðstöðina Trex, Valitor, Landsvirkjun, Securitas, Morgunblaðið, Arion banka, Tæknivörur, Skeljung, Umferðarstofu, Norðurál og Dynjanda. Gefin verða um 10.000 endurskinsvestiaf vandaðri gerð og er það von þeirra sem að átakinu standa að þau nýtist skólunum næstu árin. 

Þema verkefnisins er „Allir öruggir heim“ því öll eigum við rétt á því að koma örugg heim, ekki síst yngstu borgarar landsins.

Vettvangsferðir eru rótgróinn hluti af leikskólastarfi. Til að tryggja öryggi barnanna meðan á þeim stendur er mikilvægt að þau séu vel sýnileg. Þegar börnin eru öll í endurskinsvestum verða þau ekki bara sýnilegri fyrir aðra í umferðinni heldur auðveldar það leikskólakennurum og öðru starfsfólki að fylgjast með hópnum og sjá frekar ef einhver röltir frá. Endurskinsvesti ætti að nota allt árið um kring.

Það er von þeirra sem að átakinu standa að vestin muni nýtast vel í starfi leikskólans. 

 

 

 

 

Kristján Ingi formaður Núpa og Ómar Gunnarsson gjaldkeri Núpa færðu leikskólabörnunum vestin fyrir hönd Björgunarsveitarinnar.

08.07.2014 23:33

Ásbyrgismótið 2014

 

 

 

 

08.07.2014 11:28

Fræðasetur um forystufé opnað í Svalbarði

Fræðasetur um forystufé var opnað í blíðskaparveðri á Svalbarði í Þistilfirði laugardaginn 29. júní 2014.

Í frétt á heimasíðu Atvinnu-þróunarfélags Þingeyinga segir að fjölmargir gesti hafi lagt mislanga leið þangað til þess að samfagna og skoða safnið:

Foringi frá Ytra-Álandi

Foringi frá Ytra-Álandi

Allir sem við var rætt voru sammála um að virkilega vel hefur tekist til. Gamla félagsheimilið hefur verið tekið rækilega í gegn og fengið nýtt hlutverk. Þar er nú kominn mjög skemmtilegur áfangastaður fyrir ferðamenn á Norðausturlandi en það verður þó ekki eina hlutverk fræðasetursins.

Þegar upp kom sú hugmynd að stofna setrið í Þistilfirði lofaði þáverandi sauðfjárræktar-ráðunautur Bændasamtaka Íslands stuðningi sínum við verkefnið, því hvergi hefur ræktun forystufjár verið meiri en í Norður-Þingeyjarsýslu. Í grein frá Forysturæktarfélagi Íslands í Bændablaðinu sl. október segir Ólafur R. Dýrmundsson að íslenska forystuféð sé meðal þeirra verðmætu erfðaauðlinda sem beri að varðveita í samræmi við alþjóðlega sáttmála og skuldbindingar.

Hann segir félagið fagna stofnun Forystufjársetursins og að við hæfi sé að reisa slíkt setur í Norður-Þingeyjarsýslu þar sem þungamiðja forystufjárræktar hafi staðið frá fornu fari. Þaðan hafi flestir sæðingahrútarnir komið og á seinni árum hafi verið selt þaðan all margt forystufé á fæti á fjárbú víða um landið.

Safn um forystufé

Daníel Hansen og Bjarnveig Skaftfeld með Foringja sér að baki.

Aðal hvatamaðurinn að uppbyggingu fræðaseturs um forystufé er Daníel Hansen skólastjóri Svalbarðsskóla, búfræðingur og áhugamaður um forystufé. Verkefnið hófst með stofnun fræðafélags um forystufé árið 2010 og hefur víða mætt áhuga. Ráðunautar Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins komu að faglegum undirbúningi Forystufjársetursins og munu áfram koma að starfi þess eftir því sem efni og ástæður þykja til. Meðal annarra samstarfsaðila eru Búnaðarsamband Norður Þingeyinga og Bændasamtök Íslands. Svalbarðshreppur léði starfseminni gamla félagsheimilið og verkefnið hefur hlotið styrki frá Vaxtarsamningi Norðausturlands og fleiri aðilum.

Fjölmargir einstaklingar hafa einnig sýnt safninu velvilja og látið því í té bæði sögur, myndir og gripi. Fremstur á sviðinu í Forystufjársetrinu stendur Foringi sem enn var í fullu fjöri þegar Skúli í Ytra-Álandi ánafnaði hann setrinu.

Sýninguna í Forystufjársetrinu hönnuðu þeir Þórarinn Blöndal og Finnur Arnar. Á staðnum er einnig kaffihúsið Sillukaffi sem býður upp á sérblandað kaffi og sérbakað meðlæti, myndlistarhorn þar sem nú er sýningin Horfnir veðurvitar með vatnslitamyndum eftir Ástþór Jóhannsson og einnig verða í setrinu seldir gripir unnir úr afurðum forystufjár.

Ýmsan meiri fróðleik og myndir má sjá á vefsíðu og Facebook síðu Fræðaseturs um forystufé:

www.forystusetur.is/

www.facebook.com/pages/Fræðasetur-um-forystufé/135006659991808

04.07.2014 11:52

Slökkviliðsæfing

Síðustu áramót voru slökkvilið í Norðurþingi sett undir einn hatt.  Grímur Kárason var ráðinn í fullt starf sem slökkviliðsstjóri yfir öllum deildum innan sveitarfélagsins, en þær eru staðsettar á Húsavík, Kópaskeri og Raufarhöfn.

 

Mikil vinna hefur verið lögð í þennan málaflokk á síðustu mánuðum, enda hafa þessi mál verið í miklum ólestri síðustu ár.  Nýjir og "gamlir" slökkviliðsmenn hafa nú þegar farið í bóklegt nám á vegum Mannvirkjastofnunnar og einnig hafa verið haldnar verklegar æfingar.

 

Á Kópaskeri hefur verið keytpur ýmis búnaður á árinu fyrir hátt á fjórðu miljón, sem er mikil og góð viðbót við þann búnað sem til var.  Framundan eru fleiri æfingar og verða settar upp vaktir allan sólarhringinn til að tryggja viðbragð ef eitthvað kemur upp á.

 

Hlutverk Slökkviliðs er mikið í hinum ýmsi aðgerðum, en þar á meðal er notkun klippibúnaðar í bílslysum.  

Í gær var haldin æfing í notkun þess búnaðarar.

 

 

Grímur Kárason 


 

 

 

04.07.2014 11:49

Leikskólamál á Kópaskeri

Í gær var m.a. fundað um leikskólamál á Kópaskeri

Eftirfarandi texti er úr fundargerð fræðslu og menningarnefndar

"""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""

Fundur fræðslu- og menningarnefndar Norðurþings

 

 3. júlí 2014 og hófst hann kl. 13:00.

 

Fundinn sátu:

Olga Gísladóttir, Stefán L Rögnvaldsson, Sigríður Hauksdóttir, Anný Peta Sigmundsdóttir, Erla Dögg Ásgeirsdóttir, Erla Sigurðardóttir

 

201406076 - Leikskólamál á Kópaskeri

Fulltrúar Öxarfjarðarskóla, Guðrún S. Kristjánsdóttir skólastjóri, Elisabeth Hauge fulltrúi starfsmanna leikskóla og Sigurður Alexander Ásmundsson fulltrúi foreldra mættu á fundinn.

Fyrir nefndinni liggja tveir undirskriftarlistar frá atvinnurekendum og foreldrum leikskólabarna á Kópaskeri.

Yfirskrift listans frá atvinnurekendum er: "Vegna þess hvað erfiðlega hefur gengið að fá til starfa nægan fjölda af hæfu starfsfólki undanfarin ár, viljum við undirrituð sem veitum forstöðu atvinnufyrirtækum á Kópaskeri og nágrenni, leggja fram þá eindregnu ósk að starfræktur verði að nýju leikskóli með fullri þjónustu á Kópaskeri.

Teljum við að það geti haft úrslita þýðingu um hvort að tekst að manna þau störf sem að fyrirtækin þurfa á að halda."

Undir listann rita sjö forsvarsmenn fyrirtækja á Kópaskeri og í nágrenni.

Yfirskrift listans frá foreldrum er: "Við  undirrituð foreldrar barna á leikskólaaldri sem búsett erum á Kópaskeri og nágrenni, leggjum fram þá eindregnu ósk að starfræktur verði að nýju leikskóli með fullri þjónustu á Kópaskeri." Undir listann rita sjö foreldrar.

 

Leikskóladeild á Kópaskeri tilheyrir Öxarfjarðarskóla, leikskóladeildin hefur ekki verið starfrækt vegna barnfæðar. Ljóst er að til að unnt sé að starfrækja leikskóla í samræmi við lög um leikskóla og aðalnámskrá leikskóla þar ákveðinn lágmarksfjölda barna.

Guðrún S. Kristjánsdóttir gerði grein fyrir kostnaði og mögulegri mönnun, bæta þarf við einu stöðugildi, fyrir liggur að kostnaður við opnun leikskóladeildar á Kópaskeri rúmast innan fjárhagsáætlunar Öxarfjarðarskóla vegna yfirstandandi árs.

 

Formaður leggur fram eftirfarandi tillögu:

"Fræðslu- og menningarnefnd samþykkir að ef þrjú börn eða fleiri eru skráð í leikskóladeild í samreknum leik- og grunnskólum innan sveitarfélagsins, verði haldið úti leikskólaþjónustu í deildinni. Foreldrar skrái börn sín vegna komandi skólaárs fyrir 1. maí ár hvert. Vegna leikskóladeildar á Kópaskeri skólaárið 2014-2015 skrái foreldrar börn sín í deildina fyrir 20. júlí." 

Stefán Leifur Rögnvaldsson lagði fram breytingatillögu þess efnis að miðað verði við fjögur börn eða fleiri til að leikskóladeild verði starfrækt. 

 

Tillaga Stefáns samþykkt með atkvæðum Erlu Daggar, Sigríðar, Annýar Petu og Stefáns gegn atkvæði Olgu. 

Elisabeth Hauge og Sigurður Alexander Ásmundsson viku af fundi kl. 13:55.

""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""

29.06.2014 23:10

Stórgóðir tónleikar á Kópaskeri

 

Í gærkvöld, 28. júní, voru haldnir harmóniku- og sellótónleikar í samstarfi við Flygilvini – tónlistarfélag við Öxarfjörð.  Þar voru á ferð þær Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Steiney Sigurðardóttir, sem báðar eru á 19. aldursári og hafa stundað tónlistarnám af miklu kappi til fjölda ára.  Steiney lauk framhaldsprófi á Selló frá Tónlistarskóla Sigursveins og stundar áfram nám við Tónlistarskólann í Reykjavík næsta vetur.  Ásta Soffía lauk diplómanámi frá Listaháskóla Íslands nú í vor og mun halda áfram námi við Tónlistarháskóla Norges í haust.

Þær stöllur spiluðu listavel og sýndu góðum hópi áheyrenda svo um munar hvað einbeitni og ástundun skilar miklum árangri.  Til hamingju!

 
 

 


 

Myndir og texti: Kristján Þórhallur

29.06.2014 21:23

Akursel ehf heiðrað

Á aðalfundi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga sem haldinn var á Kópaskeri síðastliðinn miðvikudag var fyrirtækið Akursel ehf. í Öxarfirði heiðrað fyrir framúrskarandi lífræna framleiðslustarfsemi sem byggir á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda héraðsins. Fyrirtækið er vel að Hvatningaverðlaununum 2014, komið.

Akursel

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sigurgeir Höskuldsson fráfarandi stjórnarformaður Atvinnuþróunarfélagsins afhendi Sigurbjörgu Jónsdóttur viðurkenninguna en hún ásamt eiginmanni hennar Stefáni Gunnarssyni og fjölskyldu hafa verið að gera frábæra hluti í ræktun á gullrótum sem eru afar hollar og vinsælar meðal viðskiptavina. Með þeim á myndinni er Reinhard Reynisson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.

 

Fundur Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga fór fram á Kópaskeri í vikunni.

http://www.framsyn.is/

28.06.2014 15:04

Tónleikar í kvöld

 

Tónleikar – harmonika og selló

skólahúsinu á Kópaskeri

laugardaginn 28. júní kl. 20:30

 

Ásta Soffía Þorgeirsdóttir á harmoniku

og

Steiney Sigurðardóttir á selló

 

 


 

 

Ásta Soffía lauk Listaháskóla Íslands þar sem hún útskrifaðist með Diplómagráðu nú í vor og Steiney lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskóla Sigursveins.  Ásta Soffía stefnir nú ótrauð áfram til náms í Tónlistarháskólanum í Osló í haust.

 

Efnisskrá verður fjölbreytt, bæði spila Ásta Soffía og Steiney verk saman sem og einleik.

 

Aðgangur er ókeypis, en frammi liggur söfnunarkassi og tekið er á móti framlögum með gleði, ef fólk  vill styðja unga tónlistarkonu til náms erlendis.

 

 Flygilvinir – tónlistarfélag við Öxarfjörð

 

 

 

23.06.2014 13:26

Dansinn vígður og afhentur Norðurþingi til eignar

Föstudaginn 20.júní sl. var Dansinn formlega vígður og afhentur Norðuþingi til eignar.  Það var Friðrik Sigurðsson, oddviti sveitarsjórnar sem tók við gjöfinni fyrir hönd Norðurþings.

 

Dansinn er staðsettur upp á hraunhól austan við Presthólalónin, skammt sunnan við afleggerann upp á Hólaheiði.

 

Ég birti hér með hluta af ávarpi listakonunnar YST sem flutt var við afhendingarathöfnina.

 

""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""

Verkið Dans er abstraktverk og sjá má ýmislegt út úr því:  Kannski skip með segli etv. þjóðarskútuna sem dansar á öldunum. Eða er þetta kannski danspar þar sem karlinn sveigir sig að mitti dömunnar sem stígur fram í villtum dansi eða bara hvoru tveggja par og skúta! Kannski þetta séu einfaldlega form og litir sem stíga dans í birtuspili ljóss og skugga. Ég læt öðrum eftir að túlka verkið. Mér finnst gaman að skapa verk sem hafa léttleika fólginn í sér og hreyfingu innbyggða í verkið og birtan er mér mjög mikilvægt atriði – þess vegna er ég svo þakklát fyrir staðsetninguna hér, sem Vegagerðin valdi raunar og landeigendur á Presthólum og Katastöðum voru svo elskuleg að samþykkja.

Einföld form og hlutföll einkenna mína listsköpun og sammannleg nálgun er sálfræðingnum í mér eðlislæg.

Verkið Dans er tileinkað tveimur mikilhæfum Sléttungum; Járnsmiðnum og uppfinningamanninum Kristni Kristjánssyni frá Nýhöfn sem vann hugmyndir sínar í harðan málminn og skáldinu Jóni Trausta, sem smíðaði ljóð sín og sögur úr orðum. Þeir áttu það sammerkt að vilja létta mönnum lífið hvor á sinn hátt. Kristinn fann upp línurennuna, sem ekki einungis létti línusjómönnum störfin heldur bjargaði beinlínis mannslífum. Ljóð Jóns Trausta og sögur voru upplífgandi og gáfu von á erfiðum tímum: Draumalandið, Ég vil elska mitt land og uppáhaldið mitt „Vel er mætt til vinafundar“ eru landsþekktir sígildir lagatextar eftir hann.

 

Hvernig verður svona lagað til?

Á fyrsta ári mínu í skúlptúrgerð í Myndlistaskólanum á Akureyri fyrir 15 árum varð fyrsta útgáfan af Dansinum til. Nafngiftin kom strax en eftir það fór Dansskúlptúrinn, uppáhaldsljóðið mitt eftir Jón Trausta „Vel er mætt“ og bókin um Kristinn járnsmið í Nýhöfn að hvelfast hvert um annað og malla og verkið tók breytingum með hléum - eins og ætíð gerist í sköpunarferli - alveg fram á síðasta dag uppsetningarinnar. Sætta þarf ýmis praktísk sjónarmið við hin fagurfræðilegu svo verkið standist - sköpunarferlinu líkur því yfirleitt ekki fyrr en verkið er nánast uppkomið - tilbúið eins og það blasir við okkur hér í dag.

 

Hvað veldur vali listakonu á efnum í listsköpun? Hvers vegna hef ég hér notað stál, kopar, harðvið og hendingu?

Það þarf oft að að grafa djúpt - alveg inn að dýpstu hjartans rótum til að átta sig á, hvaða áhrifavaldar knýja okkur áfram til athafna.

Samstöðu- og sáttartónninn í ljóði Jóns Trausta „Vel er mætt“ minnir  mig á föður minn, hann var maður sátta – hann sló gjarnan á létta strengi og fékk menn til að sjá hið spaugilega í lífinu. Hann var einn af frumbyggjum Egilsstaða og var lengst af mjólkurbússtjóri, ég umgeggst því ryðfrítt stál og málma frá blautu barnsbeini í Mjólkurstöðinni;  skyrker, mjólkurbrúsa, smjörstrokka og skilvindur. Þegar ég las bókina um Kristinn Kristjánsson járnsmið frá Nýhöfn fann ég því mjög fljótt samhljóm fyrir verkið.

 

Sjálft smíða- og uppsetningaferlið hefur tekið á annað ár og glefsur úr því verða sýndar í vígslukaffinu á eftir milli 17 og 18 í Stórumörk, en teikningarnar og líkanið af frumútgáfu Dansins má sjá í Bragganum.

Ég vil þakka af heilum hug öllu því góða fólki sem rétt hefur fram hjálparhönd í öllu Dansferlinu bæði í stóru og smáu  – allt frá staðarvali og  fjástuðningi að hvers konar praktískri útfærslu - án ykkar hefði ekkert orðið af verkinu. Sérstaklega vil ég nefna Sigurð bónda minn Halldórsson sem staðið hefur við bakið á mér allan tímann eins og kletturinn í hafinu og  komið að nánast öllum verkþáttum. Sérstakar þakkir fá jafnframt lista-smiðirnir mínir tveir þeir Kristinn B. Steinarsson fyrir málmsmíðina og Björn Halldórsson fyrir trésmíðina – en þeir hafa ekki bara smíðað í tré og málm heldur líka hannað ýmsar lausnir í sjálfum strúktúrnum - við skulum gefa þeim gott klapp.

Mig langar nú að biðja Friðrik Sigurðsson oddvita sveitarstjórnar að stíga fram og taka við Dansinum fyrir hönd Norðurþings til eignar og við vottum það með handsali okkar hér í ykkar viðurvist.

Megi Dansinn verða okkur til gleði og gæfu!

 

"""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""""

 

 

 

 

Fleiri myndir má sjá í myndaalbúmi

http://kopasker.123.is/PhotoAlbums/262862/

 

Myndirnar tók Kristján Þórhallur 

 

  • 1